25.11.2007 | 15:17
Nú þegja menn þunnu hljóði
Það hefur verið eftirtektarvert að fylgjast með hvernig pressan fjallar um hið svokallaða Byrgismál síðustu vikurnar og mánuði, eftir að ríkissaksóknari sendi kærurannsóknina aftur heim í hérað á Selfoss. Smá klausu mátti lesa í byrjun október að sýslumannsembættið á Selfossi hefði nú aftur sent málið til saksóknara og nú er einn og hálfur mánuður síðan og ekki heyrist hósti né stuna frá saksóknara. Nú hallar í að ár sé liðið frá því að ákveðið var að rústa starfsemi Byrgisins og lífi þeirra sem að því stóðu í heilan áratug, ásamt öllum þeim sem lagt höfðu starfinu lið í baráttu fyrir útigangsmenn og fíkniefnaneytendur sem enginn vildi sinna.
Ráðamenn þjóðarinnar og almenningur missti vitið og felldi sinn dóm án nokkurra efasemda um sekt eða sakleysi. Eignaupptaka átti sér stað í krafti laga um kyrrsetningu eigna án dóms og laga á sama tíma og hundruðum milljóna var sólundað í málarekstur gegn Baugi án þess að svo mikið sem kálhaus væri kyrrsettur hvað þá fasteignir félagsins.
Össur Skarphéðinsson núverandi ráðherra laut svo lágt að kalla stjórnendur Byrgisins glæpamenn á bloggi sínu á þeim forsendum að læknir hafði fullyrt að 10 stúlkur hefðu verið barnaðar í Byrginu og var ekki annað að skilja á skrifum Össurar en stjórnendur Byrgisins ættu króana alla. Því miður sá ég þessi bloggskrif Össurar of seint til að höfða meiðyrðamál á hendur honum, sem ég komst að þegar ég ræddi við lögmann um að stefna ráðherranum, því þá voru liðnir meira en sex mánuðir frá því að hann birti óþverrann á bloggsíðu sinni.
Hjálmar Árnason var litlu betri þegar hann lét að því liggja á heimasíðu sinni að Guðmundur Jónsson væri djöfull í mannsmynd. Hann ætti nú manna best að vita betur eftir að hafa att Guðmundi út í að endurreisa Rockville úr rústum og standa síðan að því 4 árum síðar að hrekja Byrgið þaðan og reyna síðan í ofanálag að fá samþykki fyrir því að svæðinu breytt í stríðsmenjasafn.
Þetta kalla ég dómgreindarlausa framkomu.
Ég rek svo augun í það á dögunum á visir.is að Guðmundur hafði kært þjófnað á eigum Byrgisins sem geymdar voru í læstri geymslu á Efri Brú með fullu leyfi Fasteigna ríkissjóðs og Götusmiðjunnar sem nú er þar til húsa og þýfið hefði fundist á Sauðárkróki og í Reykjavík eftir ábendingu hans um hver hefði stolið mununum. En til að kóróna fréttarskömmina skýrir visir.is og síðan frá því að erfitt kunni að reynast að sanna að Byrgið eigi þýfið þó þjófurinn hafi viðurkennt brot sitt, sökum þess að samkvæmt "heimildum visis.is" geti reynst erfitt að finna nóturnar fyrir mununum. Þvílík fréttamennska, ég gæti ekki sýnt nótu fyrir matnum í ísskápnum hjá mér hvað þá nótu fyrir ísskápnum sem hann er í. Samkvæmt þessum dylgjum ætti þjófum að vera í lófa lagi að ræna og rupla að vild í trausti þess að þeir sem þeir stælu frá ættu ekki greiðslukvittun fyrir því og þar með mætti ætla að þjófurinn ætti jafn tilkall til þýfisins og sá sem hann stal því frá.
Það vakti einnig athygli mína að sýslumaðurinn á Selfossi sem daglega kemur sér í blöðin með hvaða smámál sem er þagði þunnu hljóði um það að Guðmundur hefði tilkynnt til lögreglunnar á Selfossi um þjófnaðinn á eigum Byrgisins á Efri BRú. Það vakti reyndar meiri furðu mína að staðarhaldari Götusmiðjunnar skyldi hleypa bláókunnugum fíkniefnaneytanda í læsta geymslu á Efri Brú án þess að kanna sannleiksgildi orða þjófsins.
Ég vil því að lokum segja, að hafi menn í huga að leggja það fyrir sig að hjálpa bágstöddu götufólki og fíklum þá skulu menn vera undir það búnir að fá slíka útreið sem þakklætisvott fyrir unnin störf.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.